Zhang Weidong, sendiherra Kína á Íslandi, er fæddur í maí 1957 í þorpi við rætur Tai-fjalls í Shandong-héraði í Kína. „Faðir minn var bóndi og afi minn líka,“ segir hann. „Þetta var mjög fátækt þorp þá en það er búinn að vera verulegur uppgangur þarna, meðal annars vegna ferðamannaiðnaðar,“ bætir sendiherrann við.

Ameríski draumurinn er vel þekktur. Ef þú ert bóndi í Kína, getur þú þá með vinnusemi orðið ríkur? Er kínverski draumurinn til?

„Alveg klárlega. Kína var landbúnaðarland og allir voru bændur. Það er stutt síðan Kína iðnvæddist og varð borgarsamfélag, eða á síðari hluta 19. aldar. Fram að því var Kína mjög fátækt land og fyrir vikið voru allir bændur. Ríkasti maður Kína í dag var eitt sinn bóndi, og forfeður hans líka. Það er því hægt fyrir bónda að auðgast, sé litið til sögunnar. Í dag er þetta enn auðveldara og ég get talið upp fjölda dæma um fólk sem var áður bændur og kom úr fátækri fjölskyldu, en er nú í hópi ríkustu Kínverjanna,“ segir Zhang.

„Ég er sjálfur úr bændafjölskyldu, og þó ég sé ekki ríkur þá er ég samt diplómati. Bóndasonur getur orðið ríkasti maður Kína, diplómati, listamaður eða blaðamaður, svo lengi sem hann leggur hart að sér í námi og starfi.

Kínverski draumurinn er áþekkur þeim bandaríska að vissu leyti. En þeir eru líka ólíkir. Ameríski draumurinn endurspeglar hugsanaganginn í Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á sjálfum sér og fullnægja draumnum í eigin þágu.

Kínverski draumurinn er ólíkur að því leyti að á sama tíma og þú leggur hart að þér fyrir sjálfan þig, þá ertu líka að gera samfélaginu gott. Draumurinn felur það í sér að þjóðin njóti líka ávaxtanna. Þannig verður til sterkara, betra, lýðræðislega og samstilltara samfélag. Við köllum þetta „yngingu þjóðarinnar“ (e. rejuvenation of the nation). Það er kínverski draumurinn.

Til þess að sá draumur raungerist þarf hver og einn að eiga sinn eigin draum. Minn draumur var til dæmis að verða diplómati, og hann rættist með mikilli vinnu og námi. En það hefði ekki getað orðið raunin nema vegna mikilla framfara hjá þjóðinni, sem ég naut sjálfur góðs af. Þannig hanga persónulegir draumar saman við draum þjóðarinnar. Þannig er kínverski draumurinn frábrugð- inn ameríska draumnum.“

Zhang Weidong er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .