Verð á íbúðarhúsnæði í Kína er í frjálsu falli þessa dagana, en verktakar hafa verið að setja nýbyggingar í sölu á útsöluverði til að ná tekjumarkmiðum sínum fyrir árið. Í grein Forbes segir að afsláttarsölurnar hafi byrjað í stærstu borgunum eins og Beijing og Sjanghæ, en aðrar borgir eins og Hangzhou og Chongqing hafa smitast. Í síðastnefndu borginni hefur verktakinn Hutchison Whampoa lækkað verð á íbúðum sínum um 32%.

Fyrstu merkin um lækkunina komu fram í september, en í október hófust þær fyrir alvöru þegar verktakar í Sjanghæ skáru niður verð á nýjum íbúðum. Í frétt Forbes segir að sérfræðingar hafi þá búist við því að kínverska ríkið myndi þá slaka á aðgerðum, sem ætlað hefur verið að kæla fasteignamarkaðinn. Þar á meðal má nefna hækkanir á vöxtum á íbúðalánum og bann við því að fólk kaupi íbúð ef það á aðra fyrir.

Selur íbúðir á kostnaðarverði

Forsætisráðherrann Wen Jiabao hefur hins vegar neitað að slaka á þessum aðgerðum. Sagði hann að sveitar- og svæðisstjórnir ættu að halda áfram að framfylgja stefnu miðstjórnarinnar í fasteignamálum. Að þessari yfirlýsingu gefinni hófst söluæðið og verðfallið fyrir alvöru. Verktakar eru nú í örvæntingarfullri keppni hver við annan um að selja sem mest af óseldum íbúðum. Einn verktaki sagðist vera tilbúinn að selja íbúðir í Huizhou á kostnaðarverði.

Hefur Forbes það eftir sérfræðingnum Cao Jianhai, hjá Kínversku félagsfræðiakademíunni, að íbúðaverð gæti lækkað um ein fimmtíu prósent ef miðstjórnin slakar ekki á kælingaraðgerðunum. Akademían er fjármögnuð af ríkinu og segir Forbes að þegar gælusérfræðingar kínversku stjórnarinnar spá helmingsverðlækkun hljóti það að vera vegna þess að þeir búist við jafnvel enn meiri lækkun.

Grein Forbes.