Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag og voru það helst fjármálafyrirtæki annars vegar og tæknifyrirtæki hins vegar sem leiddu hækkanir dagsins að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig hækkaði MSCI Kyrrahafs vísitalan um 0,4% eftir að hafa lækkað um allt að 0,6% frá opnun í morgun en það voru helst fjármálafyrirtæki sem ýttu henni upp á ný þar sem þau vega þungt í vísitölunni.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,9%, í Hon g Kong hækkaði Hang Seng vísitalan um 2,3% og í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 1,8%. Í Ástralíu lækkaði S&P 200 vísitalan hins vegar um 1,6%.

Langmesta hækkunin var hins vegar í Kína þar sem CSI 300 vísitalan hækkaði um 5,1% sem jafnframt er mesta dagshækkun vísitölunnar á þessu ári að sögn Bloomberg.

Ástæða hækkunar markaða í Kína má, að sögn Bloomberg, rekja til þess að einn stærsti banki landsins, China Merchants hækkaði í dag um 9,2% eftir að bankinn tilkynnti að hagnaður fyrri hluta árs gæti orðið allt að tvöfalt það sem þegar hafði verið gert ráð fyrir en bankinn kynnir uppgjör sitt síðar í vikunni.

Í kjölfarið hækkuðu einnig aðrir kínverskir bankar, svo sem China Citic Bank sem hækkaði um 4,4% eftir að talsmaður bankans sagði að hagnaður fyrri hluta árs kynni einnig að tvöfaldast miðað við það sem gert hafði verið ráð fyrir.