Töluverð lækkun varð á hlutabréfum í Asíu en hvergi þó eins mikið og í Kína þar sem CSI 300 vísitalan lækkaði um 8,1% en yfir helmingur félaganna í vísitölunni féllu um meira en 10% í dag.

Vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi frá því árið 2001 að sögn Bloomberg.

Kínverskir bankar lækkuðu töluvert eftir að Seðlabanki Kína tilkynnti í gær að bankinn myndi setja til hliðar um 17,5% af gjaldeyrisforðanum í landinu frá og með 25. júní. Þetta er í fimmta skipti á þessu ári sem bankinn tilkynnir að hann hyggist taka gjaldeyri til hliðar til að berjast við verðbólgu í landinu. Þá var einnig gefið í skyn að stýrivextir myndu hækka en verðbólgan í Kína er við það að ná 12 ára hámarki

Stærsti banki Kína, Industrial & Commercial Bank lækkaði um 8,4%, Shanghai Pudong Development Bank lækkaði um 10,4% og China Merchants Bank lækkaði um 10,5% svo dæmi séu tekin.

MSCI Kyrrahafs vísitalan lækkaði um 2,3% í en athygli skal vakin á því að kínverska vísitalan CSI 300 er ekki talin með í MSCI vísitölunni. Um sex félög lækkuðu á móti hverju félagi sem hækkaði.

Í Hong Kong varð einnig nokkur lækkun þegar Hang Seng vísitalan lækkaði um 4,2%. Í Japan lækkaði Nikkei vísitalan um 1,1% og í Singapúr lækkaði Straits vísitalan um 1,5%.