*

fimmtudagur, 21. janúar 2021
Innlent 15. september 2020 13:16

Kínverskir ferðamenn eyddu minnst

Ferðamenn frá Kína eyddu að meðaltali 21,5 þúsund á gistinótt en Norðmenn eyddu ríflega 72 þúsund krónum.

Ritstjórn
Meðaleyðsla ferðamanna eftir þjóðernum sem og skipt niður á gistinætur var mjög mismikil eftir uppruna á síðasta ári.
Haraldur Guðjónsson

Svissneskir ferðamenn til Íslands eyddu mestu í neyslu hér á landi, meðan Norðmenn eyddu mestu á hverja gistinótt á síðasta ári hér á landi að því er fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Hver svissneskur ferðamaður til Íslands á síðasta ári eyddi 339,6 þúsund krónum hér á landi að meðaltali, Bandaríkjamenn eyddu 210,3 þúsund krónum og Bretar 191,7 þúsund krónum. Hafa ber í huga að leiddar hafa verið að því líkur að inn í kortaveltu Svisslendinga sé eyðsla Íslendinga með svissnensk kort sem skekki tölur um meðaleyðslu svissnenskra ferðamanna nokkuð.

Á sama tíma eyddi hver pólskur ferðamaður til landsins einungis 26,6 þúsund krónum, sem talið er skýrast af því að hluti þeirra eigi hér fasta búsetu. Gistinætur þeirra á skráðum gististöðum var jafnframt einungis 0,8 nætur á hvern ferðamann sem er langlægsta gildið, og langt á eftir Finnum með 2,3 nætur á hvern ferðamann.

Meðalneysla hvers kínversks ferðamanns nam svo 98,2 þúsund krónum en ef horft er á neysluna fyrir hverja gistinótt var hún langminnst hjá Kínverjum, eða 21,5 þúsund krónum, sem rakið er til langs ferðalags þeirra til landsins.

Eyðsla Japana á hverja gistinótt var svo 60% hærri, eða 34,2 þúsund krónur, meðan meðalneyslan á gistinótt var hæst hjá Norðmönnum eða 72,4 þúsund krónum. Þar á eftir koma Finnar með 59,7 þúsund og svo Kanadabúar með 54,6 þúsund krónur.

Stikkorð: Landsbankinn Sviss Kína Hagsjá Kínverjar ferðamenn Kína Svisslendingar