Dóttir og einn fjárfestingarstjóra kínversks milljarðamærings sem handtekinn var á síðasta ári í Kína eru meðal fjárfesta í Pt Arctic Fund I, fjárfestingarsjóði bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital, sem nýlega keypti fjarskiptafélagið Nova að fullu og á um þriðjungshlut í Kea Hótelum.

Í febrúar á 2020 var send inn tilkynning um endanlega eigendur til fyrirtækjaskrár Skattsins fyrir hönd félagsins Nova Acquisition Holding ehf. sem heldur utan um megnið af fjárfestingu Pt Captial í Nova þar sem fram kom að hin kanadísk/kínverska Chao Gao færi með óbeint eignarhald á 31,8% í félaginu. Hugh Short, framkvæmdastjóri Pt Capital, skrifaði undir tilkynninguna. Chao Gao er dóttir kínverska milljarðamæringsins Gao Tianguo sem handtekinn var á síðasta ári vegna meints fjármálamisferlis í tengslum við fjárfestingafélagið Anxin Trust, sem skráð er á markað í Kína.

Þá var Kínverjinn Liang Zhang, sem stýrt hefur stórum hluta af erlendum fjárfestingum Shanghai Gorgeous, eignarhaldsfélags Gao Tianguo, skráður eigandi 99% hlutar í þremur félögum sem Pt Capital stofnaði í maí síðastliðnum í Alaska og Hugh Short stýrir. Félögin heita Greenascent Investment, Lotan International og Partner Insight International.

Í fyrirtækjaskrá Alaskaríkis segir að skráður tilgangur félaganna sé  „viðbótarfjárfesting og sameiginlegur kostnaður" vegna Pt Arctic Fund I.

Skráð með ráðandi hlut fyrir mistök

Í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Hugh Short að mistök hefði valdið því að rangar upplýsingar væru í upphaflegu tilkynningunni til fyrirtækjaskrár Skattsins. Chao Gao ætti mun lægri hlut en þar hefði komið fram. Þá gegndu hvorki Chao Gao né Liang Zhang neinum stjórnunar eða ábyrgðarstöðum í Pt Capital, tengdum sjóðum eða fjárfestingafélögum og hefðu engin áhrif á fjárfestingarstefnu eða einstaka fjárfestingar félagsins. Félagið væri með tugi einstakra fjárfesta í sjóðum félagsins en væri lagalega óheimilt að tjá sig um þá.Þá gæti Pt Capital ekki borið ábyrgð á aðgerðum einstaka hlutdeildarskírteinishafa í sjóðum félagsins en Pt Capital legði sjálft mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í rekstri.

Í kjölfar fyrirspurnar Viðskiptablaðsins var send inn ný tilkynning til fyrirtækjaskrár Skattsins um að enginn aðili færi með ráðandi hlut í Nova Acquisition Holding. Viðskiptablaðið óskaði samhliða fyrirspurninni eftir afriti af samskiptum stjórnenda Nova Acquisition Holding ehf. og fyrirtækjaskrár við Skattinn. Þar kemur fram að Chao Gao eigi félagið Lotan Investment sem skráð er á Bresku Jómfrúaeyjum sem stofnað var árið 2015, og er samnefnt einu félaganna sem Liang Zhang er skráður eigandi að í Alaska.

Stóð að risa innviðafjárfestingu í Panama

Auður Gao Tianguo var þegar mest var árið 2018 metinn á 3,5 milljarða dollara, um 460 milljarða króna. Eftir það fór að halla undan fæti, meðal annars vegna harðara eftirlits kínverskra yfirvalda með lánamörkuðum. Í umfjöllun kínverskra fjölmiðla segir að kínversk yfirvöld hafi talið að eignir Anxin Trust væru ofmetnar um hundruð milljarða. Þá hafi félög í eigu kínverska ríkisins verið fengin til að leggja Anxin Trust til fé til að forða félaginu frá gjaldþroti.

Á síðustu tveimur árum hafa jafnframt flestir af hans nánustu meðfjárfestum í Kína verið handteknir. Liang Zhang hefur leitt margar af erlendum fjárfestingum Shanghai Gorgeous, eignarhaldsfélagi Gao Tianguo. Meðal annars fyrirhugaða tug milljarða fjárfestingu Shanghai Gorgeous, fjárfestingu í uppbyggingu stórskipahafnar í Panama Atlantshafsmegin í landinu vegna skipa sem fara um Panamaskurðinn sem og áform um 425 MW gasknúið raforkuver. Verkefnin eru hluti af Belti og Braut áformum kínverskra stjórnvalda og eru unnin í samstarfi við kínversk ríkis og einkafyrirtæki. Verkefnið hefur hins vegar þokast hægt áfram að undanförnu og hafa fjölmiðlar í Panama bæði bent á handtöku Gao Tianguo og áhrif faraldursins.

Chao Gao helst beitt sér á sviði góðgerðamála

Chao Gao sat um tíma í stjórn Anxin Trust en hún er með meistaragráðu í opinberi stjórnsýslu frá Harvard Kennedy School. Chao Gao hefur þó einna helst beitt sér á sviði góðgerðamála, en hún hefur leitt góðgerðasamtökin May Foundation í Sjanghæ í Kína.  Gao tók meðal annars þátt í efnahagsráðstefnunni í Davos ásamt fleiri ungum leiðtogum vegna starfa sinna fyrir May Foundation.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .