Hópur kínverskra fjárfesta hefur sýnt áhuga á að reisa minkabú hér á landi. Umboðsmaður hópsins setti sig í samband við Einar E. Einarsson, loðdýraræktarráðunaut Bændasamtakanna og minkabónda í Skagafirði, vegna málsins. Þeir settu sig einnig í samband við forsvarsmenn fóðurstöðvarinnar á Sauðárkróki. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu. „Þeir ætluðu að byggja hér bú sem væri stærra heldur en öll sú framleiðsla sem er til staðar á landinu í dag,“ segir Einar.

Umboðsmaður á vegum hópsins hringdi tvisvar í hann vegna málsins í júní. „Þeir voru að forvitnast um aðstæður hér og lýstu yfir áhuga sínum á að byggja hér upp stórt minkabú.“ Einar telur að þeir hefðu þurft að byggja að minnsta kosti 50.000 fermetra hús fyrir starfsemina en það er stærra bú en áður hefur þekkst á Íslandi. Hann benti talsmönnunum á að minnkabú af þessari stærðargráðu væri of stórt fyrir Ísland og telur hann að þeir hafi hætt við áformin í kjölfarið.