„Hvorn kysi maður frekar til þess að eiga stórt land á Íslandi, kínverskt ljóðskáld og náttúruunnanda, eða einn af okkar heimatilbúnu útrásarvíkingum? Í mínum huga er bara eitt svar.“

Þetta segir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. ráðherra, í samtali við breska blaðið Financial Times sem fjallar um höfnun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, á landakaupum Kínverjans Huang Nubo.

Sem kunnugt er hafnaði Ögmundur beiðni félags í eigu Nubo um kaup ná landi á Grímsstöðum á Fjöllum í gær. Nokkrir erlendir miðlar hafa fjallað um málið í gærkvöldi og í morgun. Þar má nefna AFP, BBC, Reuters, Financial Times, Business Week og fleiri.

Financial Times segir þannig frá að beiðni Nubo hafi verið hafnað í ljósi þess að kaupin á landinu hefði gefið ráðamönnum í Beijing aukin áhrif á N-Atlantshafi. Þá hefur blaðið eftir Ögmundi Jónassyni að Íslendingar þurfi jafnframt að passa sig á því að selja ekki land eða auðlindir á „brunaútsölu“ í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru.