Fjöldi ferðamanna frá Kína til Íslands og víðar í Evrópu fer ört fjölgandi, en á fyrstu sex mánuðum ársins 2014 hefur fjöldi kínverskra ferðamanna til Íslands aukist um helming frá árinu áður.

Með gildistöku fríverslunarsamnings við Kína er talið að enn fleiri tækifæri muni skapast fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Fríverslunarsamingurinn hefur ekki bein áhrif á ferðaþjónustuna, en talið er að aukin viðskipti og samskipti við Kína muni stuðla að landkynningu þar ytra. Þetta kemur fram í frétt á vef Icelandic Times .

Haft er eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskitparáðherra, að ýmis tækifæri séu í fríverslunarsamningnum og ekki útilokað sé að Kínverjar íhugi einnig fjárfestingar í ferðaþjónustu. Kínverskir ferðamenn eru eftirsóttir og rannsóknir sýna að þeir eyða meira en meðal ferðamaðurinn. Hún segir því vonir bundnar við að þeim komi til með að fjölga hér á næstu árum, sérstaklega ef áform um beint flug ganga eftir.