Samanlagðar eignir 400 ríkustu manna Kína hafa minnkað um 40% frá því í fyrra og eru nú metnar á 173 milljarða Bandaríkjadala.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar, sem greint er frá á vef Guardian.

Kínverjum sem eiga meira en milljarð Bandaríkjadala hefur fækkað úr 66 árið 2007 í 24 nú. Þeir væru enn færri ef ekki væri fyrir hækkun kínverska gjaldmiðilsins gagnvart Bandaríkjadal.

Fasteignaerfinginn Yang Huiyuan var efst á lista kínverskra milljarðamæringa í tímaritinu Forbes í fyrra, en sú sem tapað hefur mestu nú. Tap hennar nemur 14 milljörðum Bandaríkjadala, en hún situr nú í þriðja sæti listans yfir ríkustu Kínverjana með eignir metnar á 2,2 milljarða dala.

Eignir þeirra sem eru í fasteignabransanum hafa lækkað gríðarlega en þeir sem einbeita sér að framleiðslufyrirtækjum hafa einnig orðið illa úti.