Viðræður eru sagðar standa yfir á milli eigenda bresku stórverslunarinnar House of Fraser og kínverska auðmannsins Yuan Yafei um kaup á versluninni. Yafei stýrir fyrirtækjasamstæðunni Sanpower. Breskir fjölmiðlar fullyrða að hann Yuan Yafei hafi boðið 450 milljónir punda, jafnvirði rúmra 84 milljarða íslenskra króna, í verslunina.

Slitastjórn Landsbankans á um þriðjungshlut í versluninni á móti öðrum fjárfestum. Á meðal annarra stórra hluthafa eru skoski auðkýfingurinn Tom Hunter. Baugur Group leiddi hóp fjárfesta við yfirtöku á verslunni árið 2006 og greiddi fyrir hana 351 milljón punda, jafnvirði um 65 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Þegar kröfuhafar Baugs gengu að veðum og félagið fór í þrot eignaðist þrotabú Landsbankans 33% hlut í House of Fraser. House of Fraser var skráð í kauphöll árið 1948. Hlutabréf verslunarinnar voru afskráð árið 1985 þegar auðkýfingurinn Mohamed al-Fayed keypti hana.

Undirbúningur stendur nú yfir að skráningu verslunarinnar á hlutabréfamarkað í Bretlandi síðar á þessu ári. Gangi í kaupin hins vegar eftir verður ekkert úr skráningunni.

Breska dagblaðið Guardian segir ýmsa fjárfesta hafa horft borið víurnar í House of Fraser. Þar á meðal hafi Mike Ashley, eigandi íþróttavöruverslunarinnar Sports Direct, skoðað kaup á henni í janúar. Upp úr viðræðum slitnaði. Blaðið segir Don McCarthy, stjórnarformann House of Fraser, sem á um 20% hlut í versluninni, styðja tilboð kínverska auðmannsins.