Annar stærsti banki Kína, Bank of China, hefur nú fryst hundruð milljóna sem Norður-Kórea á í bankanum, aðgerðir bankans koma í kjölfar svipaðra aðgerða sem Bandaríkjamenn hafa gripið til í kjölfar ásakanna um að Norður-Kórea stundi víðtæka peningafölsun og peningaþvætti, segir í frétt Financial Times.

Kemur þetta nokkuð á óvart þar sem Kínverjar hafa löngum forðast að grípa til aðgerða gegn stjórn Kim Jong-il.

Bandaríkjamenn létu frysta tæpa tvo milljarða króna í Banco Delta Asia sem tilheyrðu Norður-Kóreu í september síðastliðinn, vegna gruns um peningaþvætti með peninga sem aflað hefði verið með ólöglegri vopnasölu. Aðgerðir Bandaríkjanna hafa vakið mikla reiði í Norður-Kóreu og vænst er að aðgerðir Bank of China hafi svipaðar afleiðingar, segir í fréttinni.