Ekki er einungis íslenskur fiskur seldur undir vörumerkinu Icelandic Seafood sem er í eigu Framtakssjóðs Íslands. Framtakssjóðurinn er í eigu lífeyrissjóða og Landsbankans. Vörumerkið var leigt út fyrir sex árum án slíkra skilyrða en nú vill Icelandic, eigandi þess, að merkið verði einskorðað við íslenskar afurðir.

Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri framtakssjóðsins, segir að nú liggi fyrir skriflegt samþykki að þessu verði hætt, en það verði þó ekki fyrr en á næsta ári að því er fram kemur í Fréttablaðinu .

„Vörumerkið hefur hingað til ekki verið markaðssett einungis fyrir íslenskar vörur en það er markmið okkar til framtíðar að svo verði og erum við að vinna í að klára það,“ segir Herdís en dæmi eru um að kínversk tilapía, sem er auðræktaður hvítfiskur sé seldur vestanhafs í miklu magni undir merkinu.

„Ég er ekki með nákvæmar upplýsingar um hvaðan þær koma en þetta eru allt hágæða vörur sem eru undir vörumerkinu.“ Markmið fyrirtækisins, sem selt hefur stóran hluta af starfsemi sinni, er að byggja upp starfsemi sína á næstu árum í kringum vörumerkið og útleigu á því.