Kínverska fjárfestingafélagið Geely Holding Group hefur ákveðið að leggja 45,5 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði 6 milljarða íslenskra króna, til hlutafjáraukningar í Carbon Recycling International (CRI). Áformin verða kynnt á Kolabrautinni í Hörpu klukkan 2 í dag. Li Shufu, stjórnarformaður Geely, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, Sindri Sindrason, stjórnarformaður CRI og KC Tran, forstjóri CRI munu flytja erindi vegna samningsins.

CRI framleiðir metanól og notar til þess koltvísýring og endurnýjanlega raforku. Framleiðsla félagsins fer fram á Reykjanesi.

Verður stór eigandi

„Fjárfestingin felst í upphaflegu framlagi og auknum framlögum síðar til kaupa á hlutum í CRI yfir þriggja ára tímabil. Geely Group verður stór eigandi í CRI og verður fyrir vikið með menn í stjórn félagsins,“ segir í tilkynningu.

Geely Group er stærsta fjárfestingasamstæða í Kína sem fjárfestir í bílaframleiðendum. Geely er meðal annars eigandi Volvo, London Taxi Company og framleiðir einnig bíla undir eigin merkjum sem eru seldir í 35 löndum víðsvegar um heim.

„Geely Group og CRI ætla sér í samstarf á þróun á endurnýjanlegri metanólframleiðslu í Kína og að þróa faratæki sem ganga alfarið fyrir metanóli, í Kína, Íslandi og öðrum löndum. Félögin deila framtíðarsýn þar sem metanól skipar stærri sess sem hreinn og endurnýjanlegur orkugjafi í Kína, Evrópu og í heiminum.“

„Geely er staðráðið í að ná langtímaáætlunum sínum um engan útblástur með því að nýta nýjar og fjölbreyttar lausnir í orkumálum, þar á meðal með endurnýjanlegri metanóltækni í faratækjum," segir Li Shufu, stjórnarformaður Geely Group.

„Geely Auto [dótturfélag Geely Group, innsk. blm.] hefur varið töluverðum fjárhæðum í þróun og markaðssetningu á metanólvélum og bifreiðum í nokkurn tíma og hefur þegar náð árangri með tækninni í Kína. Þessi fjárfesting mun hjálpa okkur að byggja ofan á þá tækni sem er þegar til staðar, mun leiða af sér verðmætar lausnir og mun hjálpa okkur við að taka næstu skref með félög okkar í Kína. Þetta mun líka gera okkur kleift að markaðssetja þróaða metanóltækni í Evrópu," segir hann jafnframt.

„CRI hefur getið sér gott orð fyrir þekkingu sína á metanóli og hefur starfað í allri virðiskeðjunni. Ég er spenntur að vinna með þeim. Þetta er mikilvægt tákn um ábyrga afstöðu Geely hvað sjálfbærni snertir," segir Li Shufu.

Viðurkenning fyrir CRI

„Það er sönn ánægja að fá Geely Group í hluthafahópinn og í stjórnina. Samhliða vaxandi hlutdeild á hefðbundnum bifreiðarmörkuðum er Geely Group í fremstu röð í nýjum orkulausnum í faratækjum og er í hópi mikilvægustu leikmanna sem munu setja mark sitt á framtíð bílaiðnaðarins,“ segir K. C. Tran, framkvæmdastjóri og einn stofnenda CRI.

„Samhliða vaxandi eftirspurn eftir eldsneyti sem hefur lítinn kolefnisútblástur, og sem fyrsta fyrirtækið í heiminum til að þróa endurnýjanlega metanóltækni og reisa kolefnis-metanól verksmiðju er CRI að vinna að fjölda verkefna fyrir viðskiptavini í Evrópu og Kína. Fjárfesting Geely Group er enn ein viðurkenningin á starfsemi okkar og mun styrkja geta okkur til að þróa og markaðssetja metanól sem sjálfbært eldsneyti til flutninga," segir hann jafnframt.

Hafa þróað metanólvélar frá 2005

Geely Auto var fyrsti bílaframleiðandinn í Kína til að ráðast í rannsóknir og þróun á notkun metanóls fyrir bifreiðar, eða allt frá árinu 2005. Félagið vinnur í samstarfi við aðra í Kína til að auka hlutdeild metanóls á markaðnum og hefur þegar hleypt af stokkunum leigubílaflotum sem ganga fyrir metanóli í borgum víðsvegar um Kína.

CRI markaðssetur vörur sínar í Evrópu undir vörumerkinu Vulcanol . Því er blandað við bensín og notað í framleiðslu á lífeldsneyti.