KC Tran, forstjóri Carbon Recycling International (CRI), segir að upphafið af samstarfi CRI og Geely megi rekja til síðasta sumars. Þá hafi Geely fjárfest í CRI fyrir 45,5 milljónir dollara og þar með orðið stór hluthafi í fyrirtækinu. Það skref að bjóða upp á metanólknúna fólksbíla sé rökrétt framhald því Geely sé einn stærsti bifreiðaframleiðandi í heimi og CRI hafi þróað tækni til þess að umbreyta koltvísýringsútblæstri úr verksmiðjum í umhverfisvænt og endurnýjanlegt fljótandi eldsneyti — metanól.

„Bílarnir sem við fluttum til Íslands eru fyrstu metanólbílarnir frá Geely, sem fluttir hafa verið til Evrópu," segir Tran. „Markmiðið er að bjóða upp á umhverfisvæna bíla á mjög hagstæðu verði."

Metanólbílarnir, sem fluttir hafa verið til landsins, eru af gerðinni Geely Emigrand 7. Samkvæmt útreikningum CRI, Geely og Brimborgar munu þeir kosta tæpar 2,3 milljónir króna miðað við að þeir fái sömu niðurgreiðslu og rafmagnsbílar fá í dag.

„Þetta er verð er langt undir því sem þekkist, meira að segja á bensín- og dísilbílum, hvað þá rafmagns- og metangasbílum."segir Egill. „Við skulum líka átta okkur á því að þetta er sæmilega stór bíll, hann er stærri en Volkswagen Golf og Ford Focus."

Spurður hvenær þessir bílar fari í sölu hjá Brimborg svarar Egill: „Það mun að lágmarki taka tólf mánuði að prófa bílana við íslenskar aðstæður og ég yrði ekkert hissa þó þessir bílar yrðu komnir í sölu hér árið 2018 og þá jafnvel með næstu kynslóð af vélum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .