Hópur tölvuþrjóta, sem virðist njóta stuðnings kínverskra stjórnvalda, hefur stolið upplýsingum frá blaðamönnum, stjórnarandstæðingum og erlendum fyrirtækjum í rúman áratug, að því er segir í skýrslu bandaríska tölvuöryggisfyrirtækisins FireEye. Í frétt Financial Times um málið segir að hópurinn, sem í skýrslunni er nefndur er APT30, sé sérstakur fyrir það hversu lengi hann hefur starfað án þess að upp um hann hafi komist og einnig fyrir árangur hans í að ráðast á tölvukerfi sem ekki eru tengd internetinu.

Í skýrslunni er farið yfir þær aðferðir sem APT 30 hefur notað við upplýsingaöflun sína, en þar á meðal er forrit sem á kínversku nefnist Wang Luo Shen Ying, eða "dularfullur örn".

Forritinu er komið fyrir á ótengdum tölvukerfum með því að smita USB drif hjá notendum kerfanna og kemst forritið inn á þau þegar USB drifinu er stungið í samband. Það eru einkum mikilvæg tölvukerfi, eins og t.d. þau sem herir nota, sem eru ekki tengdir internetinu af öryggisástæðum og veldur þessi geta tölvuþrjótana til að brjótast inn í slík kerfi töluverðum áhyggjum.

Í skýrslunni segir að FireEye fylgist með nokkrum tugum tölvuþrjótahópa og að þar af séu um tuttugu sem líklega eru undir stjórn kínverskra stjórnvalda.