Það að kínverska fyrirtækið Shandong Longkong Travel sé skráð í bandaríska kauphöll er ef til vill ekki í frásögur færandi, en það er engu að síður áhugavert fyrir aðrar sakir. Í fyrsta lagi er helsta eign fyrirtækisins hellir í Kína og tekjur þess koma einkum í gegnum aðgangseyri að hellinum. Hellirinn er stór og hefur verið lýst sem neðanjarðarmiklagljúfri. Þetta er því líklega í fyrsta sinn sem kínverskur hellir er skráður á bandarískan hlutabréfamarkað, og jafnvel í fyrsta sinn sem slíkur hellir er skráður á markað yfir höfuð.

Þá er leiðin, sem Longkong fór til að ná slíkri skráningu óvenjuleg. Í frétt Reuters um fyrirtækið er rakin keðja eignarhaldsfélaga frá hellinum að hinu skráða félagi. Longkong er í eigu skúffufyrirtækis í Hong Kong. Það félag er í eigu annars sambærilegs á Bresku jómfrúreyjum og það félag er í eigu fyrirtækisins Long Fortune Valley Tourism International.

Skráningin fékkst svo með öfugum samruna Long Fortune við fyrirtækið BTHC XV, sem er í Delaware í Bandaríkjunum. BTHC er eignarhaldsfélag, sem stofnað var árið 2003, í kringum yfirtöku á fyrirtæki sem á og rekur elliheimili. BTHC hafði setið í skúffu Halter Financial Group ónotað, en eigendur Longkong fengu það og notuðu til að „kaupa“ Long Fortune. Með þessu móti er fyrirtækið nú skráð á bandarískan markað. Tekið er fram í frétt Reuters að ekkert ólöglegt hafi farið fram í þessu ferli, en önnur kínversk félög hafa hins vegar verið afskráð eftir að upplýsingar sem þessar hafa komið fram.