Hagnaður kínverskra iðnfyrirtækja dróst saman um 4,2% í nóvember frá mánuðinum á undan og hefur samdrátturinn ekki verið meiri í einum mánuði á síðustu 27 mánuðum. Samdrátturinn nam, eins og áður segir, 4,2% og nam 676,1 milljarði kínverskra júana, eða um 13.800 milljörðum króna.

Heilt yfir hefur hagnaður kínversks iðnaðar aukist um 5,3% á fyrstu ellefu mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Áhrif samdráttarins í nóvember sjást hins vegar á því að aukningin milli ára á fyrstu tíu mánuðum ársins var 6,7%.

Hagnaður í kínverska kolaiðnaðinum dróst saman um ein 44,4% á fyrstu ellefu mánuðum ársins og um 13,2% í olíu- og gasiðnaði.

Á hinn bóginn hefur hagnaður aukist um 15,1% í framleiðslu á raftækjum og öðrum tækjabúnaði.

Þá er áhugavert að hagnaður iðnfyrirtækja í ríkiseigu dróst saman um 3,5% á síðustu ellefu mánuðum á meðan fyrirtæki með erlent fjármagn sáu hagnað sinn aukast að meðaltali um 10,3%. Alls jókst hagnaður fyrirtækja í einkaeigu um 7,2% á fyrstu ellefu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.