Bandaríska flugfélagið United Airlines greindi fyrr í dag frá því að Scott Kirby muni taka við starfi forstjóra félagsins í maí næstkomandi. Kirby mun taka við starfinu af Oscar Munoz sem hefur verið forstjóri flugfélagsins frá árinu 2015.

Samkvæmt frétt Bloomberg þarf ráðning Kirby ekki að koma mikið á óvart en hann hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2016. Hefur hann gengt starfi aðstoðarforstjóra og verið ábyrgur fyrir flugrekstri (e. operations), markaðs-, samstarfs- og sölumálum, leiðakerfi og tekjustýringu. Áður en hann kom til United gegndi hann samskonar starfi hjá American Airlines.

Oscar Munoz mun taka við starfi stjórnarformanns United þegar hann stígur upp úr forstjórastólnum en á sama tíma mun Jane Garvey, núverandi stjórnarformaður láta af störfum. Í starfi sínu sem forstjóri hefur Munoz þurft að takast á við að koma flugfélaginu á réttan kjöl eftir erfiðan samruna þess við Continental Airlines árið 2010. Þá hafa hneykslismál einnig haft töluverð áhrif á félagið á síðustu árum en í frétt Bloomberg er meðal minnst á þegar læknir frá Kentucky var dreginn út úr einni af vélum félagsins en atvikið þótti endurspegla hve lélega þjónustu flugfélagið veitti viðskiptavinum sínum

United er fjórða stærsta flugfélag Bandaríkjanna og nemur markaðsvirði þess um 22 milljörðum dollara en hlutabréfaverð þess hefur hækkað um tæp 5% það sem af er ári. Ráðning Kirby hefur haft lítil áhrif á hlutabréfaverð United Airlines í dag en það var nær óhreyft í fyrstu viðskiptum dagsins vestanhafs.