Kirkjumálasjóður hefur selt fasteignina við Laugaveg 31, sem hýst hefur starfsemi Þjóðkirkjunnar-Biskupsstofu í tæpa þrjá áratugi. Nýir eigendur Kirkjuhússins segjast sjá tækifæri í þeirri þróun Laugavegarins að færast meira yfir í göngugötu og hyggjast koma á fjölbreyttri starfsemi í húsinu.

Ekki kemur fram í tilkynningu hvað söluverðið sé en fasteignamat fyrir árið 2021 er 625 milljónir króna. Biskupsstofa var með skrifstofustarfsemi sína í húsinu frá árinu 1995, en starfsemin flutti fyrir rétt um mánuði síðan í Katrínartún 4.

Eftir að húsið var sett á sölu árið 2017 hafnaði Kirkjuráð öllum tilboðum í húsnæðið að tillögu Agnesar Sigurðardóttur Biskups Íslands, en samkvæmt Vísi lá þá fyrir kauptilboð frá félaginu M3 Capital ehf.

Húsið, sem Marteinn Einarsson byggði af miklum myndarbrag á árunum 1928-1930, hefur jafnan verið talið einn af hornsteinum miðborgarinnar. Það er staðsett á horni Laugavegs og Vatnsstígs, í miðju skipulagðra göngugatna borgarinnar.

Kaupandinn, sem er fjölskyldufyrirtæki, hyggst færa húsið meira til upprunalegs útlits auk þess sem innra skipulagi verður breytt til að mæta þörfum væntanlegra rekstraraðila hússins. Húsið sé fallegt og vel byggt og hafi alla burði til að verða í lykilhlutverki við að glæða miðborgina og Laugaveginn auknu lífi, í samstarfi við borgar- og skipulagsyfirvöld.