Kirkjugarðar landsins eru undirfjármagnaðir um alls 3,4 milljarða króna að nafnvirði frá efnahagsruni árið 2008 samkvæmt Kirkjugarðasambandi Íslands. Aðalfundur sambandsins lýsir yfir vonbrigðum með að ekki sé gert ráð fyrir leiðréttingu á fjárveitingum til kirkjugarða landsins í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt tilkynningu frá Kirkjugarðasambandinu hefur rekstur kirkjugarðanna ekki verið í samræmi við samning sem gerður var við ríkið árið 2005. Samningurinn átti að tryggja tekjur til að standa undir rekstri garðanna og lögbundnum skyldum þeirra.

Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 urðu kirkjugarðarnir, eins og fleiri stofnanir, fyrir miklum niðurskurði. Kirkjugarðasambandið gagnrýnir að nú áratug síðar hafi sú skerðing enn ekki verið leiðrétt. Gjaldlíkan samningsins skili nú einungis 60% af þeim fjármunum sem samið var um árið 2005.

Fjárskorti kirkjugarða hefur verið mætt með því að draga úr umhirðu garðanna og viðhaldi mannvirkja sem þeim tengjast. „Nú er svo komið að mannvirki liggja undir skemmdum og umhirðu legstaða er víða ábótavant,“ segir í tilkynningunni.