Kirkjugarðar Reykjavíkur mega ekki innheimta gjald af útfararstofum vegna notkunar á aðstöðu við útfarir. Kirkjugarðarnir vildu að útfaraþjónustur innheimtu gjaldið af aðstandendum hinna látnu og legðu það inn á reikning Kirkjugarðanna. Þarna er átt við svokallað líkhúsgjald sem Kirkjugarðarnir hafa viljað innheimta fyrir að vista lík í líkhúsinu frá andláti til greftrunar.

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar í máli Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma gegn Útfararstofunni ehf. sem Rúnar Geirmundsson rekur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ef kostnaður hlytist af notkun á aðstöðu Kirkjugarðanna félli hann að réttu lagi á dánarbú viðkomandi eða þá aðstandendur sem að athöfn stæðu. Engin lagaheimild stæði til að fella slíkan kostnað á útfararþjónustu.