Bakkastakkur slhf. hefur undirritað samkomulag við PCC SE um þátttöku í fjármögnun á kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík. Eigendur Bakkastakks eru á annan tug lífeyrissjóða ásamt Íslandsbanka. Í tilkynningu segir að verkefnið sé nú fullfjármagnað en heildarfjárfestingin vegna verksmiðjunnar er um 300 milljónir dollara eða á fjórða tug milljarða íslenskra króna.

Í tilkynningunni segir að verkefnið sé fjármagnað að stórum hluta með erlendu lánsfé frá leiðandi þýskum banka. Rúmur fjórðungur fjárfestingarinnar kemur frá Bakkastakki í formi lánsfjármögnunar og forgangshlutafjár í PCC BakkiSilicon hf., félaginu sem stofnað hefur verið utan um verkefnið. Fjármögnunin er háð vissum skilyrðum, t.d. eru gerðir fyrirvarar við atriði er lúta að rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA á samningum vegna verksmiðjunnar við Landsvirkjun og Landsnet.

Segir jafnframt í tilkynningunni að þetta sé fyrsta verkefnafjármögnun af þessari stærðargráðu með þátttöku erlends banka á Íslandi um langt skeið.