Fyrsta kísilmálmverksmiðjan landsins leitar nú nauðasaminga en um átta mánuðir eru síðan hún var gangsett. Um áramótin verður ný verksmiðja ræst á Bakka við Húsavík en hún er nokkuð stærri en verksmiðja United Silicon í Helguvík. Erfiðlega gengur að ráða iðnaðarmenn til starfa á Bakka. Óvissa ríkir um verksmiðjur Thorsil og Silicor Materials en bæði fyrirtækin hafa átt í vandræðum með fjármögnun.

Framtíð fyrsta íslenska kísilversins, United Silicon í Helguvík, er óljós. Í byrjun síðustu viku sendi fyrirtækið frá sér tilkynningu þar sem fram kom að  það hefði fengið heimild til greiðslustöðvunar og væri að reyna að ná nauðasamningnum við lánadrottna.

„Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa félaginu miklu tjóni," segir í tilkynningunni. „Vegna þessara rekstrarerfiðleika var fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánardrottna og yfirvofandi eru aðgerðir einstakra kröfuhafa ef ekki verður brugðist við án tafar. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV eykur enn á þessa óvissu en samningar um uppgjör þeirra skulda sem þar var tekist á um hafa ekki borið árangur."

Mikið er í húfi. Á meðal fjárfesta í United Silicon eru íslenskir lífeyrissjóðir og Arion banki, sem einnig er einn af lánadrottunum. Morgunblaðið greindi frá því að Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður og Eftirlaunasjóður íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA) hefðu samtals lagt um 2,2 milljarða í United Silicon. Frjálsi og Festa lögðu 433 milljónir til hlutafjáraukningar í apríl síðastliðnum.

Vandræðin byrjuðu strax

Framkvæmdir við verksmiðju United Silicon hófust árið 2014 og 13. nóvember í fyrra ræsti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ljósbogaofninn.  Aðeins nokkrum dögum síðar bárust kvartanir frá íbúum Reykjanesbæjar um reykmengun og brunalykt. Upp úr miðjum desember var ástandið orðið það slæmt að haldinn var opinn íbúafundur í Reykjanesbæ um verksmiðjuna og mengunina sem frá henni barst. Í febrúar bárust fregnir af því að Umhverfisstofnun hygðist loka verksmiðjunni yrði ekki ráðist í tafarlausar úrbætur vegna mengunarinnar. Í byrjun apríl fundaði umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um málefni United Silicon og var fundurinn í beinni útsendingu á vef þingsins. Nokkrum dögum seinna kom upp eldur í verksmiðjunni en engan sakaði. Í lok sama apríl stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemina. Eftir að verksmiðjan var gangsett að nýju héldu vandræðin áfram og bárust fregnir af því í sumar.

Auk vandamála vegna mengunar hefur United Silicon átt í fjárhagsvandræðum.  Strax fór að bera á þessu þegar framkvæmdir stóðu yfir því síðasta sumar bárust fréttir af því að starfsmenn ÍAV hefðu lagt niður störf vegna skuldadeilu. ÍAV var aðalverktaki kísilversins og sögðu forsvarsmenn þess að United Silicon skuldaði háar fjárhæðir. Með dráttarvöxtum hljóðaði krafa ÍAV upp á um tvo milljarða króna. Deilunni lauk með því að gerðardómur úrskurðaði fyrir tæpum mánuði síðan að United Silicon þyrfti að greiða ÍAV rúmlega einn milljarð króna vegna ógreiddra reikninga.

Rúmlega tveimur vikum eftir að úrskurðinn, eða mánudaginn 14. ágúst, barst tilkynningin frá United Silicon um greiðslustöðvun og nauðasamninga. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir forsvarsmenn United Silicon þá samþykkti bæjarráð Reykjanesbæjar bókun þremur dögum síðar þar sem farið var fram á að rekstur verksmiðjunnar yrði stöðvaður vegna mengunar.

„Slökkvi á þessu apparati"

„Nú eru menn búnir að gefa stjórnendum verksmiðjunnar tækifæri í níu mánuði til að koma í þessu í lag," sagði Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar í samtali við RÚV. „Það hefur ekki tekist og nú segja bæjaryfirvöld að nóg sé komið. Það er rétt að menn slökkvi á þessu apparati og lagi þetta og kveiki svo á því aftur ef menn komast fyrir vandamálin.“

Eftir bókun bæjarráðs sendi stjórn United Silicon frá sér yfirlýsingu, þar sem segir að unnið sér hörðum höndum að því að finna lausn á mengunarvandanum. Alþjóðlegir sérfræðingar hafi verið fengnir til verksins og þróað mælingaáætlun með norsku lofgæðarannsóknarstofnuninni (NILU).

„Ef áfram verður haldið með verkefnið mun á næstu vikum vonandi takast að greina betur hvaða efni valda óþægindum og lykt og þróa leiðir til að eyða þeim eða koma í veg fyrir að þau myndist. Stöðvun verksmiðjunnar nú myndi ekki skila neinum árangri í þeirri vinnu og skapa fullkomna óvissu um áframhald rannsókna, framtíðarrekstur, störf starfsmanna og hagsmuni kröfuhafa," segir í yfirlýsingu stjórnarinnar.

Eins og staðan er í dag er alls óvíst hver framtíð United Silicon verður en þetta fyrsta skref í kísilvæðingu landsins hefur, vægt til orða tekið, gengið brösuglega. Forvitnilegt verður að sjá hvernig til tekst á Bakka við Húsavík en þar er PCC BakkiSilicon að reisa kísilmálmverksmiðju.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .