Lokaákvörðun um byggingu kísilvers á Bakka við Húsavík verður ekki tekin á þessu ári, en það stóð til. Frá þessu var greint á vef RÚV í gærkvöldi. Allar áætlanir hafa miðað við að ákvörðun væri tekin í desember, en hún dregst fram á næsta ár, meðal annars vegna þess að fjármögnun verkefnisins er ekki komin á hreint.

Fulltrúar frá þýska fyrirtækinu PCC, sem hyggst reisa kísilverið, voru á Húsavík í vikunni ásamt fulltrúum frá þýskum verktakafyrirtækjum og verkfræðistofunni Eflu. Verið var að skoða aðstæður og funda með fulltrúum sveitarfélagsins Norðurþings um framhaldið.

Snæbjörn Sigurðsson verkefnastjóri sagði í samtali við RÚV að þessir aðilar hefðu ekki fundað á Húsavík fyrr og farið hafi verið yfir þau mál sem út af standi. Tilkynnt var um töfina á fundinum og segir Snæbjörn báða aðila hafa lýst yfir vonbrigðum með hana.