Opnað hefur verið fyrir almennar umsóknir fyrir áætlaða endurræsingu verksmiðju PCC á Bakka við Húsavík, og eru þar sérstaklega rafvirkjar og vélvirkjar hvattir til að sækja um, auk þess sem bent er á vaktafyrirkomulag sem geti auðveldað fleirum að sækja um.

Um miðjan mánuðinn hafði Viðskiptablaðið það eftir Rúnari Sigurpálssyni framkvæmdastjóra kísilversins að stefnt væri að því að gangsetja kísilverið á ný í vor, en því var lokað síðasta sumar. Við lokunina var 80 manns sagt upp, en þá sagði hann jafnframt að stefnt væri á að byrja að endurráða starfsfólk á næstu vikum, og nú 10 dögum seinna er búið að opna fyrir umsóknir.

Í tilkynningu fyrirtækisins egir að opnað hafi verið fyrir almennar umsóknir á vef fyrirtækisins og leitað sé að áhugasömu fólki í ýmiss konar störf í verksmiðju fyrirtækisins á Húsavík, en eins og áður segir eru raf- og vélvirkjar sérstaklega hvattir til að sækja um hjá verksmiðjunni.

„Við viljum vekja athygli á að í boði eru meðal annars nýtilkomnar dag- og kvöldvaktir á virkum dögum, sem auðveldar vonandi fleirum að sækja um,“ segir í auglýsingunni.

Fyrir ári síðan endurfjármagnaði móðurfélag PCC fyrirtækið með 5 milljarða króna gegn eftirgjöf af vöxtum og lengingu lána lífeyrissjóða og Íslandsbanka til kísilverksmiðjunnar.

PCC BakkiSilicon hefur opnað fyrir almennar umsóknir fyrir áætlaða endurræsingu verksmiðjunnar. Við leitum að áhugasömu...

Posted by PCC BakkiSilicon on Wednesday, 27 January 2021