„Á meðan þessi óvissa ríkir anda menn rólega en auðvitað hefur þetta gríðarlega mikið um það að segja hvernig við náum að spila úr okkar málum og þróa okkar samfélag áfram. Við treystum því að menn leysi þetta,“ segir Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, í samtali við Fréttablaðið .

Rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á því hvort orkusamningar Landsvirkjunar við PCC vegna fyrirhugaðs kísilvers síðarnefnda fyrirtækisins á Bakka við Húsavík feli í sér óheimila ríkisaðstoð getur tekið allt að tólf mánuði. Sveitarstjórinn segir menn hins vegar anda rólega þrátt fyrir að þeir hafi beðið í áratug eftir iðnaðaruppbyggingu á svæðinu.

Ekki verið að byggja nýja virkjun fyrir United Silicon

Magnús Garðarson, framkvæmdastjóri United Silicon, segist í samtali við Fréttablaðið ekki eiga von á athugasemdum frá ESA vegna orkusamnings fyrirtækisins við Landsvirkjun vegna kísilvers fyrirtækisins í Helguvík. „Við höfum hlerað hvort þetta sé eitthvert vandamál en svo er ekki því við erum að kaupa raforku sem er til og það er ekki verið að byggja nýja virkjun fyrir okkur.“