Kísilver PCC á Bakka norðan við Húsavík verður gangsett í kringum næstu mánaðamót og í mesta lagi eftir tæplega mánuð. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir gangsetningu um miðjan desember síðastliðinn, þótt sú dagsetning hafi aldrei verið heilög.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um gangsetningu en við erum að horfa til þess að setja fyrri ofn kísilversins í gang um eða rétt eftir næstu mánaðamót. Ef það tefst eitthvað verður það aldrei meira en ein eða tvær vikur. En þetta er nánast komið,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC BakkiSilicon, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hafsteinn segir enga sérstaka skýringu á því af hverju tafir hafa orðið á gangsetningunni. Síðustu skrefin í uppsetningunni hafi einfaldlega verið tímafrek.

„Það hefur ekkert komið upp á eða neitt slíkt. Það kom reyndar leiðindaveður og frost í febrúar sem hægði svolítið á þessu hjá okkur, en áhrifin voru ekki mikil. Síðustu handtökin, sem eru ansi mörg, hafa einfaldlega tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir,“ segir Hafsteinn, en þau fela meðal annars í sér yfirferð á tölvu- og framleiðslukerfum og prófun á öllum búnaði.

Lokaafhending í sumar

Þó svo að PCC fái verksmiðjuna á Bakka brátt afhenta til gangsetningar fær fyrirtækið ekki verksmiðjuna endanlega afhenta fyrr en í sumar.

„Verksmiðjan er svokallað  „turnkey“ verkefni. Það þýðir að við fáum ekki verksmiðjuna að fullu afhenta frá verktökum fyrr en verksmiðjan er búin að ganga í nokkra mánuði og framleiðslan búin að ná ákveðnum stöðugleika. Það er enginn fastur dagur á endanlegri afhendingu, en það verður í sumar,“ segir Hafsteinn. PCC hóf byggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .