Skipulagsstofnun hefur gefið út þann úrskurð að kísilverksmiðja Icelandic Silicon Corporation í Helguvík muni ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjanesbæ.

Þar segir að næg orkuöflun sé nú einungis í vegi fyrir því að framkvæmdir gætu hafist nær áramótum en unnið hafi verið að undirbúningi verksmiðjunnar í Helguvík undanfarin tvö ár á atvinnu- og hafnasvæði í Helguvík í Reykjanesbæ.

Þá segir jafnframt í tilkynningunni að Skipulagsstofnun telur að sýnt hafi verið fram á að losun helstu mengunarefna frá kísilverksmiðjunnar verði neðan viðmiðunarmarka íslenskra reglugerða og því sé ekki tilefni til þess að afmarka þykkingarsvæði fyrir starfsemina.

Skipulagsstofnun telur jafnframt að saman fari hagur fyrirtækisins og umhverfisins um hreinleika hráefna, sem muni leiða til þess að mengun verði í lágmarki.

„Kísilmálmverksmiðjan mun standa á neðri hluta iðnaðarsvæðis við Helguvíkurhöfn, sem liggur um 20m lægra en efri hluti svæðisins og því verða sjónræn áhrif að mestu staðbundin, „segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Tomahawk Development ásamt fjárfestum og íslenskum stofnendum sínum reisa verksmiðjuna sem verður rekin af nýju íslensku fyrirtæki, Icelandic Silicon Corporation (ISC).

Í fyrsta áfanga verður framleiddur 99% hreinn kísill en síðar er áformað að bæta við framleiðslu á mjög hreinum kísli og kísilflögum (2. áfangi) og að lokum framleiðslu á sólarhlöðum (þriðji áfangi).

Samkvæmt tilkynningunni er gert ráð fyrir að þær verksmiðjur verði einnig staðsettar á iðnaðarsvæðinu við Helguvík. „Stefnt er að því að ársframleiðsla kísilverksmiðjunnar verði allt að 50.000 tonn af kísli,“ segir í tilkynningu Reykjanesbæjar.

„Framkvæmdir við verksmiðjuna gætu því hafist fyrir áramót  en byggingartími mun ráðast af því hvenær næg orka fæst. Gert er ráð fyrir 30 MW orku í hvorn ofn verksmiðjunnar.  Miðað við að orkan fáist er áætlað að gangsetja fyrsta þrep árið 2010 og full afkost náist 2012.“