Kista fjárfestingafélag var tekið til gjaldþrotaskipta í héraðsdómi Reykjavíkur 20. febrúar síðastliðinn. Skiptastjóri er kominn með gögn þess í hendur. Hann kallar í dag eftir kröfum í þrotabúið.

Kista var nátengt Kaupþingi og Bakkavararbræðrum. Það var í eigu nokkurra sparisjóða, s.s. Sparisjóðsins í Keflavík, SPRON, Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Mýrarsýslu og var það stofnað til að kaupa hlutabréf í Exista árið 2006. Hlutabréfakaupin voru fjármögnuð með lánum frá Kaupþingi, Glitni og Straumi. Í lok ársins átti félagið hlutabréf í Exista fyrir rúma 20 milljarða króna. Svo tengd var Kista Existu að félagið er kallað Exista-hópurinn í Rannsóknarskýrslu Alþingis.

Í stjórn félagsins sátu m.a. á sínum tíma þeir Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri SPRON, og Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Keflavíkur.

Eiga ekkert upp í 13,6 milljarða króna kröfur

Samkvæmt ársuppgjöri Kistu fyrir árið 2011 voru eigendur félagsins fimm. Þeir voru Drómi, þrotabú Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis og Frjálsa fjárfestingarbankans, með 48,4% hlut, Sparisjóðurinn í Keflavík með 31% og Arion banki, sem átti 10%. Þá átti Sparisjóður Svarfdæla 7,1%, Eyraeldi 1,6% og Þrælsfell 1,2%.

Kista tapaði tæplega 1,6 milljörðum króna árið 2011. Skuldir námu 13.613 milljónum króna sem var tæpum 300 milljónum krónum meira en árið 2010. Þá átti félagið eignir upp á 56,6 milljónir króna. Eigið fé á móti var neikvætt um 13.557 milljónir króna. Fram kemur í ársreikningnum að unnið væri að slitum á félaginu í samvinnu við kröfuhafa og hafi þeir fengið 1.330 milljónir greiddar út árið 2011.