Kiwanishreyfingin á Íslandi hefur afhent Geðhjálp, BUGL og Forma samtals 14 milljónir króna sem söfnuðust í landssöfnuninni Lykill að lífi til styrktar geðsjúkum og aðstandendum þeirra.

Í fréttatilkynningu vegna afhendingarinnar er haft eftir Bernhard Jóhannesson, formanni K-dagsnefndarinnar:  „Við þökkum landsmönnum jákvæð viðbrögð og bakhjörlum söfnunarinnar fyrir stuðninginn. Einnig þökkum við fyrirtækjum og félagasamtökum sem styrktu söfnunina með fjárframlögum. Við efumst ekki um að framlögin muni koma í góðar þarfir hjá Geðhjálp, BUGL og Forma.”

Bernhard segir vitund almennings um K-lykilinn hafa aukist umtalsvert í kjölfar sölu K-lykilsins nú í haust og vitnar í viðhorfskönnun Capacent frá október sl. Samkvæmt henni þekkja nú  tæplega 85% svarenda K-lykilinn samanborið við ríflega 61% í síðustu mælingu í janúar 2007. Jafnframt hafi viðhorf almennings til K-lykilsins mælst marktækt jákvæðara. „Þetta skilar sér svo í aukinni umræðu um geðheilbrigðismál – og þar með er markmiðum okkar náð. Við fundum áþreifanlega fyrir þessu meðan á sölunni stóð – allir vissu um hvað málið snerist.”