Eimskip hlaut á dögunum mestu viðurkenningu sem alþjóða Kiwanishreyfingin veitir fyrir framlag sitt til samfélagslegra málefna. Eimskip hefur ásamt Kiwanishreyfingunni fært öllum 6 ára börnum á Íslandi reiðhjólahjálma að gjöf undanfarin áratug  ásamt því að fræða þau um gildi þess að nota hjálmana.

Fram kemur í tilkynningu að samstarf Eimskips og Kiwanis hófst árið 2004 og hefur það fengið gríðarlega athygli hér á landi sem og víðsvegar um heim. Borgir, bæir og sveitafélög hafi haft samband við Eimskip og Kiwanis og óskað eftir upplýsingum um verkefnið og framkvæmd þess. Nú hafi um 10% þjóðarinnar notið þessarar gjafar og fræðslu.

„Þessi viðurkenning er staðfesting á því að við erum að gera góða hluti fyrir samfélagið.  Þrátt fyrir að það sé alltaf gaman að fá viðurkenningar fyrir það sem við gerum þykir okkur samt vænst um þegar við fáum upplýsingar frá foreldrum, lögreglu og sjúkraliðum um að hjálmur sem við höfum gefið hafi bjargað mannslífi,“ segir Guðbjörg Ingvarsdóttir verkefnastjóri í kynningar- og markaðsdeild Eimskips.

„Ég vil þakka Eimskip fyrir samstarfið í þessu mikilvæga verkefni og ekki síst öllum þeim kennurum og skólastjórum fyrir framsýni sína og velvilja undanfarin 10 ár,“ segir Dröfn Sveinsdóttir, umdæmisstjóri Kiwanisumdæmisins Ísland Færeyjar, í tilkynningunni.