Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segir af og frá að afstaða einstaka þingmanna eða flokka til afnáms einkasölu ríkisins á áfengi segi til um hvort þeir séu frjálslyndir eða ekki.

„Það er bara kjaftæði.“ Allir sem hafi reynslu af áfengisvanda, hvort sem er á eigin skinni eða í fjölskyldu, átti sig á því að áfengisstefna sé ekkert grín. Hann segir Sjálfstæðisflokk beita málinu fyrir sig til að þykjast vera frjálslyndur flokkur, þegar hann sé það ekki í raun, eins og afstaða til Evrópusambands- og landbúnaðarmála gefi til kynna.

Spurður um möguleg afdrif málsins segir Árni það svo lítilfjörlegt að hann hafi ekki velt því fyrir sér. „Ég er miklu uppteknari af alvarlegri málum sem skipta meiru.“

Hann vill ekki gefa upp hvernig hann myndi ráðstafa atkvæði sínu yrði gengið til atkvæðagreiðslu um frumvarpið í dag. „Ég tjái mig aldrei um svona nema með atkvæði í þingsal.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .