Stefán Guðmundsson, forstjóri Gentle Giants, segir að hann sé mjög sáttur með árangurinn sem fyrirtækið hefur náð í sumar, miðað við það sem hann heyrir í kringum sig og það sem liggur í loftinu. Þegar hann er spurður út í hvort hann hafi fundið fyrir því að hægja hafi tekið á vexti í komu ferðamanna segir hann: „Eigum við ekki að segja það að hægst hafi á aukningunni, miðað við það sem áður var. Það liggur auðvitað í loftinu út um allt land. Það blasir við í greininni,“ segir Stefán.

Forstjórinn útskýrir að þetta sumar hafi verið frábrugðið að því leytinu til að fyrirtækið hafi byrjað að sigla 1. apríl. „Það var alveg kjaftfullt hjá okkur fyrstu vikurnar í apríl – í vetrarríki. Það kom okkur verulega á óvart. Við fórum svo að rýna betur í þetta og sáum að þetta var afgangurinn af norðurljósaumferðinni, sem skilaði sér til okkar líka. Tímabilið byrjaði með látum, öfugt við tímabilin á undan. Áður hefur þetta byrjað rólega og trappað sig síðan upp,“ bendir hann á.

Tímabilið hjá Gentle Giants nær frá 1. apríl og út nóvember og bendir Stefán á að mikilvægir mánuðir væru fram undan fyrir hvalaskoð­unarfyrirtækið og því væri erfitt að sjá heildarmyndina. Hann kveðst þó ánægður með stöðu fyrirtækisins hingað til í sumar. Mikill vöxtur hefur verið hjá því á síðustu árum.

Stjórnvöld verði að taka U-beygju

Þegar Stefán er spurður út í framtíðarsýn hans varðandi ferðaþjónustu segir hann að hann sjái fyrir sér ágætis tíma fram undan. „Ég held að ferðaþjónustan hafi náð að slípa sig til að mestu og ég sé að það er að verða aukin fagmennska í greininni,“ segir Stefán. Hann leggur þó áherslu á að hans tilfinning sé sú að að það vanti alltaf meira og meira upp á tengingu stjórnvalda inn í púls atvinnugreinarinnar sjálfrar.

„Fjarlægðin virðist aukast og skilningurinn þverra. Mér finnst þetta miður. Samskiptin við emb­ættismannakerfið og stjórnsýsluna eru orðin mjög snúin og síðustu árin hefur vantað mikið upp á liðlegheit. Embættismannakerfið virðist vera komið með öfug formerki og fer sínu fram; helst í því að leggja steina í götu fyrirtækja og einstaklinga. Þarna finnst mér meiri hættumerki á ferðinni varð­ andi greinina heldur en þróun hennar innan frá. Ytra umhverfið verður sífellt erfiðara og löngu orðið tímabært að taka það til róttækrar endurskoðunar,“ segir Stefán.

Samkeppnin hefur verið hörð

Hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík og nágrenni eru fjögur talsins. Fyrirtækin Gentle Giants og Norðursigling eru stærst af þeim og hafa verið lengst. Í vor var greint frá því að Norðursigling hefði meinað Gentle Giants aðgang að slippnum á Húsavík. Félögin tvö hafa átt í nokkrum erjum og gengið hafa ásakanir á milli hvalaskoðunarfyrirtækjanna tveggja. Hins vegar segir Stefán að það hafi orðið til lausn eftir þessar uppákomur og að þetta hafi bjargast fyrir horn.

„En samkeppnin, hún er búin að vera hörð á milli þessara tveggja fyrirtækja. Það hefur verið greininni frekar til góðs, eins og víða er,“ segir Stefán.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .