"Okkur hefur verið boðið að skoða þetta mál sem fjárfestingatækifæri og ætlum að gera það eins og með önnur stór fjárfestingatækifæri," sagði Hjörleifur Jakobsson, forstjóri fjárfestingafélagsins Kjalars, þegar hann var spurður um áhuga félagsins á kaupum á Icelandair Group.

Kjalar er sem kunnugt er að stærstum hluta til í eigu Ólafs Ólafssonar fjárfestis og er ein stærsta eign félagsins hlutur í Kaupþing banka. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er það Kaupþing banki sem aðstoðar Kjalar við skoðun á kaupunum.

Annar fjárfestingahópur hefur verið að skoða málið og tengist hann Fjárfestingafélaginu Hesteyri. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ekkert samstarf sé á milli hópanna en það er Glitnir banki sem aðstoðar Hesteyrar-menn.