Kjalar ehf., sem er í eigu Ólafs Ólafssonar, hefur keypt 33,03% hlut í HB Granda fyrir um sjö milljarða króna af Kaupþingi, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Um er að ræða 563.664.658 hluti, keypta á genginu 12,5 krónur á hlut.

Kjalar ehf. verður við þetta næststærsti hluthafinn í félaginu. Vogun hf. er stærsti hluthafinn með 40,1% og Hampiðjan er þriðji stærsti hluthafinn með 9,38% hlut, samkvæmt hluthafaskrá. En Vogun er einnig stærsti hluthafinn í Hampiðjunni.

Fyrir viðskiptin átti Kjalar ehf. ekkert í HB Granda. Eftir viðskiptin á Kaupþing 0,01% í félaginu eða 216.176 hluti, sem er um 2,7 milljónir króna að markaðsvirði, miðað við gengi þessara viðskipta.