Markmiðið er að gefa ferðamönnum tækifæri til að taka betri sjálfsmyndir heldur en hægt er að gera með svona „selfie stick", eða kjánapriki," segir Davíð Örn Þórisson annar stofnenda Selfie Station, sem var meðal þeirra 10 af 128 umsækjendum sem komust inn í Startup Tourism viðskiptahraðalinn, sem lauk á dögunum.

Davíð Örn segir hugmyndina að hafa komið til vegna aukinna vinsælda ljósmyndakassa í veislum ýmiss konar þar sem fólk leyfir sér að vera frjálslegra en ef ljósmyndari er á ferðinni. „Þetta er í raun mjög einföld lausn og auðveld í notkun, myndavél, tölva og snertiskjár í vatnsheldri umgjörð sett upp á helstu ferðamannastöðum, þar sem fólk getur stillt sér upp og tekið sjálfsmyndir sem það fær svo sendar í tölvupósti og getur þá deilt þeim á samfélagsmiðlum eða öðrum stöðum," segir Davíð Örn.

„Þjónustan yrði algerlega ókeypis, en hugmyndin er að við getum þá nýtt póstinn sem auglýsingapláss, til að láta ferðamennina vita af nærliggjandi afþreyingu. Myndin væri auk þess með tveimur litlum, en smekklegum auglýsingum, frá bakhjörlum í sínu hvoru neðra horninu. Önnur kannski frá Reykjavíkurborg, en við erum nú í viðræðum við borgina sem hefur gengið ágætlega sem og við nokkra aðra stóra aðila í ferðaiðnaðinum hér, um að vera með okkur í þessu."

Mögulegt markaðsefni

Davíð og félagi hans í verkefninu, Þórarinn Árni Pálsson, hafa gert tilraunir með frumgerð ljósmyndakassans á nokkrum vinsælum ferðamannastöðum. „Síðan sjáum við fyrir okkur að ákveðið hlutfall af okkar notendum væru tilbúnir að borga vægt gjald fyrir að fá mynd í fullri upplausn og þá án allra auglýsinga. Við viljum einnig bjóða upp á prentaðar myndir fyrir þá sem það vilja, sem gætu þá verið sóttar í Leifsstöð eða bjóða þeim að myndirnar yrðu sendar sem póstkort til nákominna," segir Davíð Örn en þeir félagar smíðuðu kassann sjálfir.

„Við erum æskuvinir og miklir tækjaáhugamenn. Sjálfur er ég nemi í byggingartæknifræði, og áhugaljósmyndari og hef verið að taka myndir í mörg ár, en Tóti er rafmagnstæknifræðingur. Markmið okkar er að byggja upp net myndavéla um höfuðborgarsvæðið og aðra ferðamannastaði sem ferðamenn gætu þá þrætt og safnað myndundum. Síðan erum við einnig að horfa til fyrirtækja í ferðaiðnaði sem vilja auka þjónustu við sína viðskiptavini, sem gæti einnig skapað þeim gott markaðsefni."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umboðsaðili Apple á Íslandi velti 5,7 milljörðum í fyrra.
  • Risasjóður hefur keypt meirihluta hlutafjár í HS Orku.
  • Farið er yfir stöðu mála hjá Wow air.
  • Greiningardeild Arion banka spáir samdrætti í fyrsta sinn frá hruni.
  • Úttekt á leiguverði aflaheimilda.
  • Veiðitímabilið fer senn að hefjast.
  • Rætt er við nýjan framkvæmdastjóra Íslenska byggingarvettvangsins.
  • Forstöðumaður MPM meistaranáms í verkefnastjórnun við HR er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.
  • Óðinn skrifar um málefni íslenskra dómstóla.