Samninganefnd Starfsgreinasambandsins var send heim undir kvöldmat í kvöld og segir Kristján Gunnarsso, formaður SGS að aðeins eigi eftir að klára örfá atriði í kjarasamningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Undir þetta tekur Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA. Hann vonast til að hægt sé að klára samninga í kvöld eða á morgun.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa fundað sín á milli í dag auk þess sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa farið yfir sín mál.

Á heimasíðu Starfsgreinasambandins segir að þar sem ekki hefur borist viðunandi svar frá ríkisstjórninni um aðkomu hennar að kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, hafi Starfsgreinasambandið frestað viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins.

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins sagði Kristján að nú væri aðeins beðið eftir útspili ríkisstjórnarinnar og óþarfi að menn væru að bíða eftir því á fundarstað. Hann sagðist vona eftir svörum frá ríkisstjórninni sem fyrst.