Aðilar vinnumarkaðarins hafa lagt drög að nýjum kjarasamningum og funduðu í dag með forystumönnum ríkisstjórnarinnar.

Þegar hefur verið samið um launaramma og hækkun almennra launataxta og bíða aðilar vinnumarkaðarins eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og útspili hennar í málinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins að ríkisstjórnin muni á næstu dögum kynna áætlanir sínar. Hann nefndi meðal annars hækkun barnabóta og stuðning við starfsmenntun.

Þá kom einnig fram að aðilar vinnumarkaðarins vonuðust til að ríkisstjórnin myndi kynna sína stefnu um helgina og útilokuðu ekki að hægt yrði að klára samninga um helgina.