Kjararáð ákveður laun bankastjóra og forstjóra fjármálafyrirtækja sem ríkið á meira en helmingshlut í. Stjórnir bera annars ábyrgð á að starfskjarastefnu sé fylgt og ber þeim að útskýra og réttlæta launaákvarðanir sínar. Í þeim tilvikum sem ríkið á ekki meirihluta gilda almennar reglur og stjórn ákveður launakjör. Þetta kemur fram í eigendastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart fjármálafyrirtækjum sem nú hefur verið kynnt.

Í stefnuyfirlýsingunni er tekið fram að opinber fjármálafyrirtæki skulu tileinka sér hófsemi þegar kemur að launakjörum. Með þessu er átt við að laun stjórnenda eigi að standast samanburð á þeim sviðum sem viðkomandi fyrirtæki starfa á, en séu ekki leiðandi. Einnig er kveðið á um að stjórn gerir árlega tillögur um framgangskerfi og starfskjarastefnu til hluthafafundar.