Kjararáð, nýr úrskurðaraðili sem ætlað er að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, ráðherra, dómara og annarra ríkisstarfsmanna, hefur verið skipað, segir í tilkynningu.

Ráðið ákveður laun þessara aðila þar sem þannig er háttað um störfin að kjör geta ekki ráðist með samningum á venjubundinn hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.

Í kjararáði sitja Jónas Þór Guðmundsson, lögmaður, Rannveig Sigurðardóttir, hagfræðingur og Kristinn Hallgrímsson, lögmaður, kosinn af Alþingi, Jakob R. Möller, lögmaður, skipaður af Hæstarétti og Guðrún Zoëga, verkfræðingur, skipuð af fjármálaráðherra.

Varamenn eru Eva Dís Pálmadóttir, lögmaður, Svanhildur Kaaber, skrifstofustjóri og Ása Ólafsdóttir, lögmaður, kosin af Alþingi, Kristinn Bjarnason, lögmaður, skipaður af Hæstarétti og Auður Finnbogadóttir, viðskiptafræðingur, skipuð af fjármálaráðherra.