Kjararáð hefur það sem af er þessu ári birt fjölda úrskurða um laun embættismanna og forstjóra opinberra fyrirtækja. Launahækkanirnar hlaupa á tugum prósenta og eru afturvirkar, sem þýðir að sumir þessara háttsettu opinuberu starfsmanna munu nú fá nokkurra milljóna króna eingreiðslu.

Sem dæmi er varaforseti Hæstaréttar nú kominn með 1,9 milljónir í mánaðarlaun, forstjóri Fjármálaeftirlitsins 1,8 milljónir og ríkisendurskoðandi ríflega 1,7 milljón. Laun ríkisendurskoðanda hækka um tæplega 30% og hann fær 4,5 milljóna eingreiðslu, svo dæmi sé tekið. Þessar ákvarðanir kjararáðs eru umdeildar en ekki eru nema átta mánuðir síðan ráðið ákvað að hækka laun kjörinna fulltrúa og ráðherra um 44%.

Eitthvað sem enginn skilur

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að kjararáð eigi að fylgja launaþróun en ekki leiða hana eins og það sé að gera núna.

„Þetta byrjaði í raun fyrir ári síðan þegar kjararáð hækkaði laun skrifstofustjóra og ráðuneytisstjóra," segir Gylfi. „Síðan hefur ráðið haldið áfram að hækka laun nánast allra forstöðumanna og embættismanna. Launin eru ekki bara hækkuð heldur eru þau hækkuð afturvirkt. Þetta er eitthvað sem enginn skilur og enginn sættir sig við. Kjararáð er nú mótandi um launaþróun í landinu. Bæði upphæð launa, því þetta eru miklu hærri upphæðir en við þekkjum á almennum markaði svo ég tali nú ekki í samningum hjá ríkinu, og líka í breytingum. Það segir reyndar í lögum að kjararáð megi ekki vera launaleiðandi en það gerir það samt. Það er ljóst að þingmenn og ráðherrar hafa verið mjög sáttir við ákvarðanir kjararáðs því þeir hafa ekkert aðhafst. "

Gylfi segir að næstu samningar sem ríkið þurfi að glíma við séu við háskólamennta starfsmenn. Í ágúst falli úr gildi gerðardómur vegna átján félaga í BHM.

„Nú er ríkið sem sagt að fara að semja við fólkið sem vinnur með þeim forstöðumenn sem hafa fengið þessar miklu hækkanir og leiðréttingar hjá kjararáði. Það verður fróðlegt að sjá hvernig fjármálaráðherra ætlar að svara þeirra kröfum. Síðan í haust eru samningar framhaldsskólakennara og grunnskólakennara lausir."

Forsendur metnar í febrúar

í febrúar síðastliðnum ákvað forsendunefnd SA og ASÍ að segja ekki upp samningum þrátt fyrir að ein af þremur forsendum væri brostin. Þó samningar á almennum vinnumarkaði losni ekki fyrr en í lok næsta árs þá verða þeir aftur endurskoðaðir eftir 8 mánuði, eða í febrúar á næsta ári. Forsendan sem brast síðast, þ.e. launaþróun annarra hópa, verður aftur til endurskoðunar þá.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .