Sá möguleiki er raunverulega fyrir hendi að kjarasamningum verði sagt upp í febrúar á næsta ári ef marka má leiðara Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í fréttabréfi SA sem út kom í dag. Hann segir ríkisstjórnina ekki hafa staðið við nema hluta gefinna loforða sinna í tengslum við gerða kjarasamninganna í vor og jafnframt að veigamestu málin, lagning Vesturlands- og Suðurlandsvegar auk sjávarútvegmálanna, hafi setið á hakanum. Jafnframt hefur vinna við samræmingu lífeyrisréttinda legið niðri.

„Þá er grafalvarlegt að fjárfestingar í orkuframkvæmdum og tengdri framleiðslu eru ekki að hefjast í þeim mæli sem vonast var til. Rammaáætlun sem lögð hefur verið fram um orkunýtingu á næstu árum setur afar þröngar skorður við uppbyggingu iðnaðar og virkjana á næstu árum og bendir til að ríkisstjórnin sjái mikil vandamál við fjárfestingar og atvinnusköpun á þessu sviði,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Ríkisstjórnin sýnir hvorki forystu né vilja til að skapa samstöðu og koma landinu út úr kreppunni. Hún er að láta tækifærin til að koma atvinnulífinu á alvöru skrið og vera komin upp úr kreppunni árið 2015 renna sér úr greipum. Þvert á móti er stórhætta á að kreppuástandið vari út allan þennan áratug. Að sjálfsögðu gagnrýna forystumenn ríkisstjórnarinnar alla þá sem þeim virðast ekki sjá ljósið en skilja ekki að þeim, sem vanist hafa myrkrinu, verður minnsta skíma að skínandi leiftri.

Þetta skapar óþarfa óvissu um það verkefni sem bíður aðila vinnumarkaðarins í janúar 2012 vegna mögulegrar uppsagnar kjarasamninga 1. febrúar. Stöðugleiki á vinnumarkaði er mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið og samfélagið allt og er ein lykilforsenda þess að trú skapist á framtíðina og að fjárfestingar aukist. Það er því keppikefli fyrir atvinnulífið að kjarasamningarnir haldi en það gerist ekki á grundvelli nýrra loforða frá ríkisstjórninni. Loforðakvóti hennar er búinn. Ríkisstjórnin hefur enn svigrúm til að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar, meiri atvinnu og bætt lífskjör.“