„Ég held að þarna hafi tekist að finna lausn sem eigi að geta sameinað þetta hvort tveggja, að bæta stöðu þeirra tekjulægstu án þess að það raski sérstaklega forsendum stöðugleika og áframhaldandi uppbyggingu kaupmáttar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í samtali við Morgunblaðið . Segir hann nýgerða kjarasamninga ekki gefa tilefni fyrir Seðlabankann til þess að hækka stýrivexti.

Gylfi segir að Már Guðmundsson seðlabankastjóri verði að gæta sín á því að tala ekki upp verðbólgu. „Hann fór að tala um að þetta væri næstum því tíu prósenta launabreyting en það er ekkert í þessum samningum. Það er þá eitthvað annað sem fyrirtækin ákveða að gera sem tengist ekkert kjarasamningunum.“

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að samtökin hafi lagt ríka áherslu á að fyrirtækin leiti allra leiða til að koma í veg fyrir að þessar kostnaðarhækkanir fari beint út í vöruverðið.