*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 20. janúar 2019 16:17

Kjarasamningar og gengið áskoranir ársins

Forstjóri Securitas segir stærstu áskoranir framundan vera tækniframfarir og rekstrarumhverfi.

Júlíus Þór Halldórsson
Ómar segir starfsemi Securitas mun fjölbreyttari en hann hafi gert sér grein fyrir áður en hann tók við sem forstjóri.
Haraldur Guðjónsson

Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, segir starfsemi fyrirtækisins skiptast í þrjá meginhluta, en alls vinna yfir 500 manns hjá fyrirtækinu, sem velti um 5 milljörðum króna á síðasta ári. „Tekjulindirnar skiptast í grófum dráttum í þrjá nokkurn veginn jafn stóra hluta. Við erum að selja búnað, við erum að setja upp og viðhalda búnaði, og svo erum með fjargæslu og mannaða gæslu. Svo brotnar þetta niður í frekari tekjustrauma,“ segir hann og bætir við að ásættanlegur vöxtur sé í hverjum og einum hluta.

„Horfandi til ársins þá eru stærstu áskoranirnar tækniframfarir – þessi stafræna umbylting sem er að verða í rekstri hjá okkur – og rekstrarumhverfi fyrirtækja,“ segir Ómar, en þegar kemur að rekstrarumhverfinu segir hann yfirstandandi kjarasamninga eina stærstu áskorunina. „Það hefur gríðarleg bein áhrif á okkur, verandi með 80% af okkar kostnaði í þeim ranni. Óbeint hefur það svo áhrif á rekstur okkar viðskiptavina sem aftur hefur áhrif á eftirspurn þeirra eftir okkar þjónustu.“

Fyrir utan kjarasamninga segir hann stærstu áskoranir komandi missera vera efnahagsóstöðugleika, og þar spili gengið hvað stærstan þátt. „Það eru þessar sveiflur. Við erum að flytja inn og selja búnað, þannig að sveiflur í gengi koma okkur ekkert sérlega vel. Maður finnur það á fyrirtækjunum sem við erum að þjónusta að þegar búnaður og þjónusta sveiflast mikið í verði seinkar það framkvæmdum og dregur úr eftirspurn. Þegar verðið lækkar svo nógu mikið setur það allt af stað aftur. Það eru þessar sveiflur í sjálfu sér, bæði í okkar rekstrarumhverfi, og okkar viðskiptavina, sem er alveg rosalega erfitt að eiga við.“

Þá segir hann ákveðinn hluta þeirra þjónustu vera með því fyrsta sem fyrirtæki skeri niður þegar harðni í ári, og nefnir sérstaklega mannaðar stöður í þeim efnum. „Þó ég sé bjartsýnn að eðlisfari lít ég á árið 2019 sem nokkurs konar áskorun í okkar rekstri, útaf þessum mörgu ósvöruðu spurningum í umhverfi okkar.“

Nánar er rætt við Ómar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is