Lausafé Íslandspósts ohf. er nær uppurið . Vegna þess að félagið er rekið með tapi verður ekki til nægt handbært fé til að greiða út laun eða standa við aðrar skuldbindingar félagsins á næstunni, nema aukin lánsfjármögnun komi til.

Helga Sigríður Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Íslandspósts, segir í samtali við Viðskiptablaðið að kjarasamningar sem hafi verið undirritaðir við Póstmannafélagið á þriðjudag muni vega þungt í rekstrinum, sem sé ekki stöndugur fyrir.

Launakostnaður stærsti útgjaldaliðurinn

Samkvæmt ársreikningi Íslandspósts fyrir síðasta ár nam handbært fé félagsins tæpum 87 milljónum króna í byrjun þessa árs. Vegna viðvarandi taprekstrar félagsins hefur handbært fé þess dregist saman um 2 milljarða frá árinu 2004 m.v. fast verðlag 2014, eins og kom fram í greiningu Viðskiptablaðsins á afkomu félagsins frá 30. apríl síðastliðnum. Helga Sigríður segir í samtali við Viðskiptablað­ ið að handbært fé Íslandspósts nú sé minna en það var um seinustu áramót.

Á seinasta ári greiddi Íslandspóstur rúmar 330 milljónir í laun og launatengd gjöld í hverjum mánuði, að meðaltali. Samkvæmt kjarasamningi sem félagið undirritaði við Póstmannafélagið þriðjudaginn 7. júlí síðastliðinn hækka laun á bilinu 3,2 til 7,2%, mest hjá þeim sem hafa minna en 300.000 krónur í mánaðarlaun.

Sé miðað við að laun hækki að meðaltali um 6% mun Íslandspóstur að óbreyttu þurfa að greiða rúmar 350 milljónir króna í laun á mánuði út þetta ár. Félagið er illa í stakk búið til að mæta slíkri aukningu. Heildarútgjöld Íslandspósts voru rúmar 566 milljónir króna á mánuði árið 2014, en launakostnaður er stærsti útgjaldaliður félagsins.

Helga Sigríður segir að Íslandspóstur glími við lausafjárvanda og nú standi yfir viðræður við við­ skiptabanka félagsins um fjármögnun. „Við erum í viðræðum við hann núna og það skýrist fljótlega.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .