Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja segir að tilraunin sem gerð var með undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði hafi ekki gengið upp.

Friðbert segir að ríki og sveitarfélög, auk Gerðadóms og Kjaradóms hafi hækkað laun alla launahópa sem þeir úrskurða um, um 9-10% á fyrsta samningsárinu. Á sama tíma hafi meðallaun á almennum vinnumarkaði hækkað um 5,5-6%.

Forsendurnar standast ekki

Í samningsforsendum kjarasamninga félaga innan ASÍ, sem SSF byggir einnig á segir:

„Kjarasamningur þessi byggir á þremur meginforsendum sem eru að kaupmáttur launa aukist á samningstímanum, að launastefna hans verði stefnumótandi fyrir aðra kjarasamningagerð og að fullar efndir verði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við samninginn.“ Nánar segir um lið 2: „Í febrúar 2016 skal nefndin meta hvort sú launastefna og þær launahækkanir sem í samningnum felast hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði. Nefndin skal tilkynna fyrir lok febrúar 2016 hvort sú forsenda hafi staðist.“

Hann bendir einnig á að kjarasamning SSF en þar segir um forsendur kjarasamnings:

„Komi til þess að nefnd sú sem fjallar um forsendur kjarasamninga á almennum vinnumarkaði nái samkomulagi um breytingu á samningum skal sambærileg breyting gilda um þennan samning. Komi til þess að kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verði almennt sagt upp er heimilt að segja samningi þessum upp frá sama tíma. Fellur samningurinn þá úr gildi frá lokum apríl 2016 m.v. tilkynningu fyrir kl. 16:00 þann 28. febrúar 2016.“

Friðbert segir að það sé öllum ljóst að þessi forsenda haldi ekki og ekki útilokað annað en að fyrirtæki á almennum markaði hækki laun umfram ákvæði kjarasamninga og að það muni koma í ljós í febrúar nk. hvort að samningarnir falli úr gildi.