Miðstjórn Alþýðusambands Íslands krefst þess að verðhækkanir, sem boðaðar hafa verið, verði dregnar til baka. Greint var frá því í gær að nokkrir framleiðendur hyggðust hækka vöruverð sitt. Sælgæti frá Nóa Síríus hækkar um allt að níu prósent, vörur frá Freyju og Lýsi um allt að sjö prósent og próteindrykkurinn Hámark hækkar um fimm prósent. Þá hækkar Emmess ís um 4,5 prósent og egg frá Brúneggjum um 4,2 prósent.

Alþýðusambandið segist ætla að fylgjast grannt með verðhækkunum fyrirtækja og opinberra  aðila. Ef verðhækkunum verður haldið til streitu mun ASÍ  birta nöfn þeirra fyrirtækja sem hækka verð til upplýsingar fyrir neytendur.

„Ein helsta forsenda þeirra kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember er að verðbólga verði lág þannig  að kaupmáttur í landinu aukist. Til þess að þetta takist er mikilvægt að opinberir aðilar og verslunar- og þjónustufyrirtæki haldi aftur af verðhækkunum á næstu misserum. Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa brugðist vel við kallinu,“ segir í ályktun ASÍ.

Samtök atvinnulífsins taka undir þessar áhyggjur ASÍ í pistli sem birtist á vef SA. Þar segir að fréttir fjölmiðla í dag og gær af yfirvofandi verðhækkunum innlendra framleiðenda sé mikið áhyggjuefni. „Með því að miða við verðbólgu liðins tíma þegar teknar eru ákvarðanir um verðhækkanir er markmiðum kjarasamningsins stefnt í hættu,“ segir á vef Samtaka atvinnulífsins.