*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Innlent 3. apríl 2019 21:57

Kjarasamningar í höfn

Launahækkanir verða að hluta tengdar hagvexti og hægt verður að segja upp kjarasamningnum lækki stýrivextir ekki.

Ritstjórn
Skrifað var undir kjarasamning skömmu eftir klukkan 10 í kvöld.
Haraldur Guðjónsson

Skrifað var undir kjarasamning Samtaka atvinnulífsins við 19 félög innan Starfgreinasambandsins auk VR og annarra félaga  Landssambands verslunarmanna á ellefta tímanum í kvöld. Samningurinn gildir fram til nóvember 2022. 

Hreinar launahækkanir til þeirra sem starfa á töxtum nema 90 þúsund krónum í fjórum hækkunum yfir samningstímann samkvæmt tilkynningu frá Eflingu. Þar segir að tekið hafi verið tillit stöðu atvinnulífsins vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu auk þess sem sköpuð eru skilyrði til vaxtalækkunar. Því verði minnsta lækkun launa á samningstímanum á þessu ári. 

Ákvæði um uppsögn kjarsamnings lækki stýrivextir ekki

Ein af forsendum samningsins sé að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. Efling segir samningsaðila sammála um að samningurinn skapi aðstæður til þess. Ákvæði er í samningnum um uppsögn kjarasamningsins verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði við Viðskiptablaðið fyrr í kvöld að samningurinn muni leiða til jöfnuðar. „Já ég tel það,“ sagði Björn. Fólk muni finna fyrir hækkuninni í launaumslaginu. „Það er ljóst að sumir fá meira en aðrir," sagði Björn. „Við höfum sagt frá upphafi að gott innlegg frá stjórnvöldum hjálpi til við að klára kjarasamning og mér sýnist það vera að gera það,“ segir Björn sem viðurkenndi að fall Wow hafi þar einnig haft áhrif.

Sjá einnig: Framlag ríkisins 100 milljarða virði

Upphaflega stóð til að skrifa undir kjarasamning klukkan þrjú í dag en vinna við að ljúka samningum hefur tafist fram á kvöld. Þá átti að kynna útspil ríkisstjórnarinnar tengt kjarasamningnum klukkan hálf sjö í gærkvöld en hætt var við kynninguna á síðustu stundu. Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að framlag ríkisins tengt kjarasamningunum næmi um 100 milljörðum króna á samningstímanum. Meðal aðgerða eru þróun íbúðabyggðar á Keldnalandi, hækkun lægstu ráðstöfunartekna um 10 þúsund, og sérstök lán eða nýting hluta lífeyrisiðgjalds til fyrstu húsnæðiskaupa.

Launahækkanir tengdar hagvexti

Þá eru einnig ákvæði í samningnum um að hagvaxtaraukning skili sér til launafólks í formi krónutöluhækkana. „Að því gefnu að hagvöxtur á mann aukist um tiltekið hlutfall munu koma til sjálfkrafa hækkanir til viðbótar hefðbundnum umsömdum launahækkunum. Líkt og aðrar krónutöluhækkanir í samningnum er þessi hagvaxtartengdi launaauki útfærður þannig að hann skilar sér betur til þeirra sem vinna á töxtum. Miðað við meðalhagvöxt síðustu 30 ára gæti slíkur ábati skilað 10-24 þúsund til viðbótar við heildarhækkun launa á samningstímanum,“ segir í tilkynningu frá Eflingu.

„Samhliða undirritun samnings mun ríkisvaldið skuldbinda sig til að lækka skatta þannig að það skili sér í 10 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna á mánuði til handa tekjulægstu hópum í skrefum. Tryggt verður að hækkuð skattleysismörk haldi raungildi sínu út samningstímann. Hækkun skerðingarmarka barnabóta, til viðbótar við hækkun barnabóta sem þegar var kynnt í fjárlögum síðasta árs, mun einnig skila sér vel til tekjulágra,“ segir í tilkynningunni frá Eflingu.

„Aðgerðir ríkisins í húsnæðismálum koma til með að fela í sér aukið fjármagn til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tekjulága og lagasetningu sem hamlar óhóflegum hækkunum húsaleigu. Að auki mun ríkið skuldbinda sig til kerfisbreytinga varðandi lánakjör og fjármálakerfið, sérstaklega til skrefa til afnáms verðtryggingar,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Stikkorð: Kjaramál