*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 19. október 2019 11:05

Kjaraviðræður afturábak fremur en áfram

Formenn BSRB og BHM hafa misjafna afstöðu til þess hvort lífskjarasamningarnir séu til eftirbreytni.

Höskuldur Marselíusarson
Sonja Ýr Þorbergsdóttir er formaður BSRB og Þórunn Sveinbjarnardóttir er formaður BHM.
Aðsend mynd

Með lífskjarasamningunum svokölluðu sem skrifað var undir í vor er óhætt að segja að íslenskt atvinnulíf og efnahagur hafi sloppið fyrir horn. Kjarasamningalotunni er þó langt frá því lokið og er ósamið við öll stéttarfélög starfsmanna hjá hinu opinbera. Í lok síðasta árs voru um 80 kjarasamningar lausir í heildina en í ár losna 174 samningar til viðbótar auk þess sem nokkrir losna á næsta ári. Því er ekki enn útséð um hvort stöðugleiki náist á vinnumarkaði í stað þess sem kallað hefur verið höfrungahlaup sem einkennist af eilífum samanburði og sífellt hærri kröfum á víxl.

Eftir að slitnaði upp úr viðræðum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) við ríki, borg og sveitarfélög hefur kjaradeilunum nú verið vísað til Ríkissáttasemjara, en það er forsenda þess að aðildarfélögin geti boðað til verkfalla eða annarra þvingunaraðgerða.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir þó ekki á döfinni að ana út í aðgerðir, þó að samningar hafi verið lausir frá því í lok marsmánaðar. Félagið leggur áherslu á styttingu vinnutíma í viðræðunum. „Við erum allavega ekki að tala um aðgerðir eftir einhverja daga, þetta er 22 þúsund manna bandalag og fjölmörg aðildarfélög, þannig að þetta tekur allt sinn tíma, en við finnum mikinn þrýsting frá fólki og þolinmæðin er á þrotum, enda fráleit staða að við séum ekki komin lengra í viðræðunum.

Við vísuðum sérstaklega til Ríkissáttasemjara því við upplifðum að gangurinn væri jafnvel að fara afturábak heldur en áfram, þegar viðsemjendur okkar bökkuðu aftur í fyrri kröfur, þá sérstaklega þegar rætt var um styttinguna,“ segir Sonja Ýr, sem segir samtöl um aðgerðir þó verða tekin innan félaganna samhliða viðræðunum hjá sáttasemjara.

„Okkar mat er að lífskjarasamningamódelið hafi slegið jákvæðan tón inn í viðræðurnar, sérstaklega með hliðsjón af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í kjölfarið enda teljum við mikilvægt að stuðla að jöfnuði. Aðildarfélög BSRB eru með mjög svipaðar kröfur og sambærilegar við það sem gert var á almenna vinnumarkaðnum, þar sem horft er til þess að tryggja þeim sem eru með minnst milli handanna mestu hækkunina. Hins vegar voru ekki góð skilaboð inn í kjaraviðræðurnar að í ríkisfjármálaáætlun var lagt upp með að það yrði kaupmáttarrýrnun hjá opinberum starfsmönnum, þegar miðað er við verðbólgutölur í hagspá.“

Vilja gera eigin samninga

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður Bandalags háskólamanna (BHM), tekur í svipaðan streng þó hún hafni krónutöluhækkunum líkum þeim sem samið var um á almenna markaðnum.

„Við erum að leggja áherslu á hækkun launa og höfum afþakkað kjararýrnun, sem til dæmis krónutölutöluhækkanir eins og gerðar voru í lífskjarasamningnum svokallaða myndu leiða til fyrir okkar fólk. Það þarf ekki annað en að setja þessar tölur inn í launatöflurnar til að sjá að það myndi þýða kjararýrnun hjá þorra fólks í BHM, í ljósi verðbólguspárinnar sem verið er að vinna með,“ segir Þórunn.

„Stóra málið í þessari kjaralotu fyrir aðildarfélög BHM er að við fáum tækifæri til að gera okkar eigin kjarasamninga, án tillits til þess hvað aðrir hafa gert, því við höfum sjálfstæðan samningarétt. Við óttumst ekki einangrun í þessu því það á eftir að gera kjarasamninga við alla opinbera starfsmenn, bæði okkar fólk innan BHM, fólk innan BSRB, og síðan fólkið innan Kennarasambandsins og svo líka innan ASÍ, svo þetta er drjúgur hluti íslensks vinnumarkaðar.“

Þórunn segir hitt stóra málið í kröfugerð BHM vera styttingu vinnutímans líkt og hjá BSRB og var hún því spurð hvort það myndi ekki þýða hækkun launa á hvern klukkutíma. „Krafan er stytting vinnuvikunnar án skerðingar launa, því það er ætlast til þess að fólk skili sömu afköstum. Það liggur ekki fyrir af hálfu viðsemjenda okkar hver kostnaður yrði af styttingunni, við höfum ekki sett fram prósentuhækkanir opinberlega, en við viljum ósköp einfaldlega aukinn kaupmátt fyrir okkar fólk,“ segir Þórunn.

„Loks er meginkrafa BHM að létta endurgreiðslubyrði námslána en forsætisráðherra skipaði vinnuhóp um það mál í sumar sem vonandi fer að skila mjög bráðlega. Ég geri mér vonir um að þær tillögur geti orðið gagnlegt innlegg í þessar viðræður. Kjarasamningar aðildarfélaga BHM eru búnir að vera lausir núna í hálft ár, en kjaraviðræður eru í gangi, og við erum að halda fundi í hverri viku núna, eftir stutt hlé í sumar. Þetta hefur gengið hægt, stundum þokast áfram og stundum afturábak og nokkuð langt í land núna.“

Samanburður á eplum og appelsínum

Sonja Ýr hefur sagt að opinberir starfsmenn eigi ekki að borga fyrir styttingu vinnutímans um klukkutíma á dag eins og krafan er, með því að gefa eftir önnur réttindi eins og 35 mínútna greiddan kaffitíma. „Á opinberum vinnumarkaði er það almennt þannig að fólk nýtir sér kaffitímana í matarhléinu, enda mætir fólk í dagvinnu oft klukkan átta og fer fjögur.

Ef vinnudagurinn styttist hljóta þessar mínútur óhjákvæmilega að styttast, það helst í hendur, en það er ekki komið að einhverjum málamiðlunum í því. Við höfum séð skýra kröfu hjá okkar viðsemjendum um að taka kaffitímann upp í sem er þvert á alla hugmyndafræði um styttinguna,“ segir Sonja Ýr og vísar í tilraunaverkefni hjá ríki og borg þar sem ákveðnar stofnanir unnu skemur.

„Þá dró fólk úr kaffipásum sínum svo þetta er framkvæmanlegt ef farið er yfir alla verkferla og skoðað hvernig hægt er að skipuleggja sig betur. Rannsóknir sýna þó að það þarf ákveðna hvíld innan vinnutímans og þess vegna segjum við að það verði að vera miðlægt ákvæði áfram um einhvers konar hlé sem tryggi að það geti neytt matar á vinnutíma. Það er ekki fráleit krafa árið 2019, þegar margir atvinnurekendur eru jafnvel að fá til sín listakokka til að auka orku fólks.

Varðandi samanburð á lengd vinnuviku og framleiðni milli OECD ríkja eftir ábendingar um að hér væru kaffitímar borgaðir kom í ljós eftir fyrirspurn Íslendinga að þeir eru ekki með yfirsýn yfir það eftir löndum hvort kaffitíminn sé inni eða úti. Svo við vitum ekki hvort við erum að bera saman epli og appelsínur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.